23.10.06

Airwaves var fínt í ár. Ekkert eitt band stóð upp úr en íslensku böndin voru almennt betri en útlend...allavega af því sem ég sá.

Salómónsdómurinn er sem hér segir:

Miðvikudagur

Noise (2/10)
Stóð í biðröð fyrir utan hið auma pleis Gauk á Stöng og heyrði 3-4 lög með þessu hörmunar "Seattle"-bandi. Hef séð þá áður og voru þeir slappir þá og jafnvel enn verri nú!

Ég meina, kommon, er þetta leiðinda gröndsj ekki svolítið búið?

Gaukur á Stöng (0/10)
Ég veit, ég veit! Þótt þetta sé ekki hljómsveit, þá er þetta tónleikastaður og ómissandi hluti af þessu öllu saman. Það að troða inn þessum "leyfilega" fjölda (sem miðast við viðbótarpláss á einskis nýtri 2. hæð með asnalegum skerm) og ætlast til að hægt sé að njóta tónleika við eitthvað sardínudósakaliber, er alveg út í hött. Ég ætla ALDREI þarna inn aftur!

Lokbrá (7/10)
Eftir 3 mínútur á Gauk var ekki hægt annað en að flýja yfir á gamla, góða, sweet Grand Rokk. Sá þar Lokbrá, nett proggaða á því. Betri en ég ímyndaði mér.

Sprengjuhöllin (5/10)
Heyrði þetta band með öðru eyranu á Stúdentakjallaranum um daginn. Spiluðu meira og minna sama lagið allt kvöldið, alltént var ekki mikið verið að skipta um tóntegundir. Ekki spes.

Lada Sport (8/10)
Rosafínt hjá drengjunum, einn eða tveir fyrrverandi Ísidór-meðlimir sem ég þóttist sjá þarna. 2 rosaflott indílög!

Fimmtudagur
Hreyfði mig ekki út af Nasa allt kvöldið, sem var gott:

Lay Low (7/10)
Fullrólegt fyrir minn smekk en ágætt samt. Fékk þrusuviðtökur hjá salnum, allavega. Lovísa greinilega í smá meik-fíling, enda allar kynningar á ensku.

Æla (9,5/10)
Já, já, já!!! Ég er búinn að fylgjast með uppáhaldskeflvíkingunum mínum í meira en 2 ár núna og hafa þeir stöðugt verið að bæta stórskemmtilegt sjóv sitt.

Allt small núna saman í unaðsgigg hjá þeim, hef ekki heyrt betra sánd á Nasa hjá nokkru bandi, Heil Ðe Veil eins og kóngulóarmaður upp um alla veggi. Gaf Thurston Moore (sem stakk gítarnum sínum svo eftirminnilega fleiri metra upp í loftspíkera á Nasa í fyrra) ekkert eftir.

Öryggið, spilagleðin og dónt-giv-a-fokk-um-hvað-blaðamönnum-finnst-isminn alveg út úr kortinu. Kom m.a.s. mér á óvart. Lengi lifi Æla!!!

Skátar, gigg nr. 1 (8/10)
Skátar hafa oft verið betri (sjá t.d. laugardag a.n.) og slappt sánd skemmdi annars ágæta byrjun. Náðu samt upp fínum sprettum fyrir rest, einkum í lokin. Hvernig er annað hægt með besta bandi landsins?

Reykjavík! (9/10)
Hvern hefði órað fyrir því að eitt besta indíband ever á Íslandi komi að stærstum hluta frá Ísafirði? Þrusustuð, krádsörf og mikið rokk og ról. Eini mínusinn var að heyra hvorki "Advanced Dungeons & Dragons" né "Jesus meets Daniel San", langbestu lögin á bestu íslensku plötu sem ég hef heyrt í ár (bíð enn eftir fullmasteraðri Skátaplötu...).

Sú sjón sem ég mun ALDREI gleyma eru gógópíur (í "All the Beautiful Boys") við hliðina á Valda úr 9/11's, sem var ber að ofan. Svakalegasti "kontrast" sem ég hef séð í hljómsveit!

Metric (9/10)
Besta erlenda bandið sem ég sá á hátíðinni. Emily Haynes er svolítið eins og Ruth Reginalds, ef hún hefði farið út í pönkið og ÁÐUR en hún fór út í þetta fæðingarhálfvita-meikóver. "Too Little Too Late" er með betri lögum sem ég hef heyrt á þessu ári.

Fín tilbreyting að sjá arabalega gæja í rokkhljómsveit (enda er ekkert til sem heitir 'fólk af erlendu bergi brotið' í Kanada lengur). Vonandi að Emily komi svo aftur og þá með Broken Social Scene.

Love is All (6/10)
Hálfslappt froðupopp. Minnti á danska stuðbandið "Whale", aðallega skrækirnir í söngkonunni. Saxófónn er með leiðinlegri hljóðfærum í heimi og var notað óspart. Fljótgleymt svíaglundur - hvenær fáum við "I'm from Barcelona" og "Peter, Björn and John", "Bob Hund", "Dungen", nú eða "The Knife"? Nóg af góðu sænsku stöffi, sko.

Flöskudagur
Fór í Hafnarhús og var þar allt kvöldið. Ákvað að dissa Gauk af heilum hug og missa þ.a.l. af Wolf Parade. Þeir voru víst góðir, heyrði ég. Jæja...

Baggalútur (3/10)
Hálfleiðinlegt að stærsta sörpræsið á Airwaves hafi verið hvað Baggalútur eru ógeðslega leiðinleg hljómsveit. Þeir hljómuðu eins og útbrunnir Stuðmenn, með þarna Papa-fiðlukallinn og gaurinn sem spilaði einu sinni með tönnunum á gítar í Hemma Gunn (fæ ennþá aumingjahroll þótt þetta hafi verið ca. 1988). Gutluðu þarna eitthvað Ladda-kántrí og...æi, best að gleyma þessu bara og skoða frekar snilldarsíðuna í staðinn!

Benni Hemm Hemm (?/10)
Var orðinn fullsósjal á þessu stigi og sá BHH sama og ekkert. Spyr mig af hverju það voru 10 manns með lúðra á sviðinu. Örugglega fínt gigg, samt...

Islands (8/10)
Vá, ég varð að bæta þessu við eftirá, gleymdi þessu bandi í bloggsamningunni áðan!

Furðulega litlaust gigg, fannst mér. Islands eru miklu betri heldur en forverinn Unicorns og 'Return to the Sea' er rosafín plata. Einhvern veginn náði þetta ekki að skila sér á svið, sem er mjög leitt. Töff samt að sjá hvað það eru alltaf margir kynþættir pr. meðlimi í Kanadískum böndum.

"Rough Gem" og "Swans" voru mjög flott hjá þeim, bara eitthvað svo mikið 'plötuspilaragigg'.

Apparat Organ Kvartett (9/10)
Alltaf jafn gaman á Apparat - hef ekkert við dóminn frá AW 2005 að bæta.

Jakobínarína (9,5/10)
Næstbesta band hátíðarinnar á eftir Ælu. Mér fannst prógrammið þeirra frekar langt, enda þekkti ég bara 1 lag með þeim. En samt! Þvílíkt kjarnorkupáver og endalaust flott lög. Bassaleikarinn er óendanlega töff, þótt (eða kannski vegna þess að) hann líti út fyrir að vera ekki deginum eldri en 13 ára.

Loksins að ég fékk að sjá fullt prógramm. Hef alveg leitt þá hjá mér vegna fullmikils hæps og veit m.a.s. ekki hvort þeir hafi gefið út plötu ennþá (úbbs!). Er ofurseldur og margfrelsaður eftir þessa kyngimögnuðu snilld!

The Go! Team (8/10 til 9/10?)
Djööööfulsins!!!

Eins og ég sagði í fyrra bloggi var ég að hrynja niður Systrastapa um daginn og rústa á mér ökklanum. Þriðja kvöldið af margra klukkutíma kyrrstöðu á gólfi - Plús það að ég var að skipuleggja vísindaferð vélaverkfræðinema til okkar í Fjarhitun, plús endalaust mikið að gera í vinnunni - var farið að segja til sín og ég var ekki upp á marga fiska í kringum miðnættið.

Þetta er náttúrulega skandall, enda var ég búinn að fórna miklu til að sjá Go! Team. Þar að auki hitti ég fyrr um kvöldið einn GT-meðlim, stórkostlegan meistara að nafni Sam Dook. Hann var einu sinni í hljómsveitinni marg-Íslandskomandi I'm Being Good (hverrar hljómsveit ég var í bol af - sjá stórkostlegt Ísafjarðargigg þeirra hér!) og spilaði með þeim á langbestu plötunni þeirra, Sub Plot.

I'm Being Good var TIL ALLRAR HAMINGJU ekki grautað inn í þennan færibandsvinnslu-velling sem Airwaves nú er. Deffinittlí hápunktur kvöldsins að hitta þennan gaur, sem er alveg nákvæmlega eins karakter og Dave og Andrew í IBG.

En - því miður - nennti ég bara ekki að hanga þarna lengur eftir 12 og sé gríðarlega eftir því. Ég stóð nokkuð aftarlega og sá að þetta var rosaflott sjóv. 2 trommarar, gítarleikarar og örugglega alveg geggjað stuð. Vonandi verð ég einhvern tímann betur upplagður til að sjá þetta band almennilega læv...

Laugardagur
Byrjaði daginn á því að fara á vígsluathöfn upp í Hellisheiðarvirkjun. Rosalega fínar veitingar og endalaust úrval af tæknimenntuðu píps til að spjalla við - en gríðarlega langar og leiðinlegar ræður og hreinasti TORTÚR frá einhverri helvítis lúðrasveit sem ætlaði aldrei að hætta!!!

Skrapp um kl. 4 í kaffi til Benna og þaðan niðrí Kaffi Hljómalind. Var mikið að rápa fram og aftur um bæinn og sá eiginlega ekkert band þarna, nema náttúrulega auðvitað:

Skátar, gigg nr. 3 (9/10)
Ég held ég hafi aldrei hlegið jafn ofboðslega á nokkrum tónleikum um ævina. Þeir Markús og Gylfi (sem er nýkominn í staðinn fyrir Óla og SMELLPASSAR í bandið) gjörsamlega fídbökkuðu hvor af öðrum með gríni og vittí kommentum.

Ef þú ert einn af þeim sem "speaks foreign", þá er eins gott að þú lendir ekki í Gylfa, hehehe!

Markús á svo besta 'sales-pitch' ársins: "Hei, svo er nýja platan að koma út og ef þið viljið kaupa hana þá er það bara Myspace, Skátar eitthvað - nú, eða bara Gúggla Skáta!".

Langafslappaðasta og "loose" gigg Skáta til þessa, fínt sánd og góður flutningur ofan á það. Ef frá er talið alveg svakalegt helvítis gigg að kvöldi föstudagsins langa sl. páska (ásamt áðurnefndum I'm Being Good, sem voru líka alveg frábærir) þá er þetta þeirra besta hingað til.

Þetta er líka þeirra síðasta sjóv um óákveðinn tíma, sniff, sniff! KOMA SVO, NÝJA PLATA!!!

Jens Lekman (8/10)
Stórskemmtilegur náungi. Ég allavega entist yfir megninu af þessu eins manns trúbadoragiggi. hann spilaði m.a.s. á einhverskonar ukulele, allavega sándaði það þannig. Nettir Jonathan Richman taktar, röddin minnti líka stundum á Phil "Microphones/Mt. Eerie" Elverum. Mjög öruggur og afslappaður performans og gríðargóðar viðtökur hjá salnum. Ég vakti afar litla lukku þegar ég reyndi að labba í gegnum þvögu sem sat á gólfinu, lán að enginn slasaðist! Reyni þetta aldrei aftur.

Var annars búinn að fá upp í kok af tónleikum, miðbænum og Airwaves-kúltúr á þessu stigi. Leit örstutt inn á Grand Rokk, sá 1-2 Sólstafa-lög og langaði til að kveðja staðinn áður en hann breytist í einhvern ógeðslegan róna-sportbar.

Get ekki gefið Ælu/Jakobínurínu fullt hús, þar sem þau náðu ekki að komast nálægt Fiery Furnaces (frá því í fyrra) að gæðum - maður þarf að vera "konsistent". Samt var þessi hátíð í heildina betri en í fyrra, þar sem allt annað en FF var meira og minna slappt.

Svo er bara að tjilla á kirkjubekk og hlusta á Sufjan þ. 17-18. nóv. Nenni ekki á Sykurmolana...